Erlent

Nýjar ásakanir á hendur Francois Fillon

atli ísleifsson skrifar
Penelope og Francois Fillon.
Penelope og Francois Fillon. Vísir/afp
Nýjar ásakanir hafa verið bornar fram á Francois Fillon, forsetaframbjóðanda franskra Repúblikana, um að hann hafi í krafti stöðu sinnar útvegað eiginkonu sinni og börnum laun úr opinberum sjóðum fyrir litla sem enga vinnu.

Franska tímaritið Le Canard Enchainé fullyrðir í nýjasta tölublaði sínu að Fillon hafi útvegað konu sinni og tveimur börnum störf sem þau þáðu fyrir alls rúma milljón evra, eða um 124 milljónir króna, úr opinberum sjóðum.

Í frétt BBC kemur fram að tímaritið hafi greint frá því í síðustu viku að Penelope Fillon, eiginkona Fillon, hafi verið ráðin sem aðstoðarmaður þingmannsins Francois Fillion, án þess að sannanir lægju fyrir að hún hafi skilað eðlilegu starfsframlagi. Nú greinir tímaritið frá því að tekjur Penelope fyrir umrætt starf hafi verið mun hærri en í fyrstu var talið.

Fyrst var greint frá því að hún hafi þegið um hálfa milljón evra, en nú fullyrðir tímaritið að launin hafi alls verið rúmar 900 þúsund evrur. Þá eiga tvö af börnum hjónanna einnig að hafa verið ráðin sem aðstoðarmenn.

Fillon heldur því fram að ekkert misjafnt hafi átt sér stað, en saksóknari hefur hafið forrannsókn til að kanna hvort að farið hafi verið með opinbert fé á brotlegan hátt.

Fillon hefur á síðustu mánuðum verið talinn líklegastur til að standa uppi sem sigurvegari í frönsku forsetakosningunum sem fram fara í vor. Eftir að greint var frá málinu hafa vinsældir hans hins vegar dalað. Marine Le Pen, leiðtogi Þjóðfylkingarinnar, mælist nú með mest fylgi, en þeir Fillon og Emmanuel Macron mælast jafnir.


Tengdar fréttir

Hamon verður á kjörseðlinum

Benoit Hamon verður frambjóðandi Sósíalistaflokksins í frönsku forsetakosningunum sem fram fara í apríl.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.