Erlent

Fillon segist einungis draga framboð til baka ef ráðist verður í lögreglurannsókn

atli ísleifsson skrifar
Penelope og Francois Fillon.
Penelope og Francois Fillon. Vísir/AFP
Francois Fillon, forsetaefni franskra Repúblikana, segist einungis munu draga framboð sitt til baka ef ákveðið verður að ráðast í lögreglurannsókn vegna ásakana um að eiginkona hans hafi þegið fé úr opinberum sjóðum án þess að hafa skilað nokkru starfsframlagi.

Málið hefur mikið verið til umræðu í Frakklandi síðustu daga eftir að tímaritið Le Canard Enchaine fullyrti að eiginkona Fillon, Penelope, hafi þegið um 500 þúsund evrur, um 62 milljónir króna, sem aðstoðarmaður þingmannsins Fillon, án þess að fyrir liggi nokkrar sannanir um að hún hafi raunverulega starfað sem aðstoðarmaður þingmannsins.

Í frétt BBC segir að hún sé einnig sögð hafa fengið bitling frá auðmanni, vini eiginmanns. Er hún sögð hafa þegið um 100 þúsund evrur, rúmar 12 milljónir króna, fyrir útgáfustarf.

Fillon hefur fordæmt umfjöllun tímaritsins og segir ekkert misjafnt hafa átt sér stað í tengslum við vinnu eiginkonu sinnar. Kveðst hann munu leggja fram sannanir máli sínu til stuðnings.

Saksóknarar hafa hafið forrannsókn á málinu.

Fillon er talinn eiga góða möguleika á að bera sigur úr býtum í frönsku forsetakosningunum í vor þar sem talið er hann og Marine Le Pen, forsetaefni Þjóðfylkingarinnar, eru talin að munu berjast um embættið í síðari umferð kosninganna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×