Erlent

Tveir forsetar í Gambíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Adama Barrow sór embættiseið í Senegal í dag.
Adama Barrow sór embættiseið í Senegal í dag. Vísir/AFP
Tveir forsetar eru nú í Gambíu. Adam Barrow, sem vann forsetakosningar þar í landi í desember, sór embættiseið í sendiráði Gambíu í Senegal í dag. Yahya Jammeh, sem tapaði kosningunum, hefur ekki viljað víkja úr embætti.

Nágrannaríki Gambíu eru í viðbragðsstöðu, en þau hafa farið fram á blessun Sameinuðu þjóðanna við hernaðaraðgerðum, neiti Jammeh að víkja.

Jammeh tók við völdum í landinu árið 1994 í tiltölulega friðsömu valdaráni. Andstæðingur hans, Adama Barrow, vann óvæntan sigur í forsetakosningum í desember. Jammeh hefur neitað að víkja en til stóð að Barrow tæki við völdum í dag, sem hann gerði, en á óhefðbundinn hátt.

Honum hafði verið gefinn frestur til miðnættis í gær en þrátt fyrir viðræður og að Senegal færði hermenn að landamærum Gambíu, neitaði hann að víkja.

Samkvæmt Reuters er Jammeh orðinn verulega einangraður og hafa fjölmargir yfirgefið ríkisstjórn hans. Honum tókst þó að lýsa yfir neyðarástandi í landinu og fékk þingið til að samþykkja að hann gæti setið þrjá mánuði til viðbótar á meðan það sé í gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×