Enski boltinn

Dean dómari sagður hrokafullur og athyglissjúkur | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mike Dean, dómari í ensku úrvalsdeildinni, gerði frekar stór mistök í leik West Ham og Manchester United í gærkvöldi þegar hann rak Alsíringinn Sofiane Feghouli af velli á 15. mínútu fyrir brot á Phil Jones, miðverði United.

Brotið leit svo sem illa út við fyrstu sýn í sjónvarpinu en Dean var vel staðsettur og hefði átt að gera betur. Slaven Bilic, knattspyrnustjóri West Ham, sagði við fjölmiðla eftir leik að hann vildi ekki einu sinni sjá gult á sinn mann fyrir þessa tæklingu.

Manni fleiri átti West Ham lítinn séns í United-liðið sem hélt boltanum vel og keyrði upp hraðann í seinni hálfleik. Það skoraði tvö mörk í seinni hálfleiknum og vann sjötta sigur sinn í deildinni í röð. En Dean stal senunni og fékk orð í eyra úr ýmsum áttum eftir leikinn.

„Þessi ákvörðun er svo röng að það er til skammar. Snerting Jones á boltann er þung og Feghouli reynir að ná til boltans án þess að fara með sólann hátt. Þessi dómari er alltaf að gera mistök. Viðbrögð Jones eiga sinn þátt í þessu og ég held að dómarinn sé aðeins að giska á hvað gerðist,“ sagði bálreiður Nial Quinn, fyrrverandi framherji Manchester City og Sunderland, á Sky Sports í gærkvöldi.

„Ég reyni alltaf að skilja að starf dómarans er erfitt en skipti eftir skipti sé ég þennan mann Mike Dean gera eitthvað svona og bara hrokinn í honum pirrar mig. Hann elskar að eigna sér sviðsljósið og ég þoli það ekki.“

Dean hefur áður eignað sér fyrirsagnirnar á tímabilinu en þetta er fimmta rauða spjaldið sem hann lyftir á leiktíðinni Þá er enginn dómari í deildinni búinn að dæma fleiri vítaspyrnur en hann.

„Þetta voru ótrúleg mistök hjá Dean. Þetta er eiginlega magnað. Það eru bara fimmtán mínútur búnar og hvernig sér dómarinn hver er að brjóta á hverjum,“ sagði Martin Keown, fyrrverandi miðvörður Arsenal, eftir leikinn í Match of the Day á BBC en þar sagði stjórnandi þáttarins, Gary Lineker, að Mike Dean væri einfaldlega athyglissjúkur.

Atvikið má sjá í spilaranum efst í fréttinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×