Enski boltinn

Wenger: „Ég hef ekki séð Özil í viku“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mesut Özil, miðjumaður Arsenal í ensku úrvalsdeildinni, er frá vegna veikinda og er ekki búist við því að hann spili aftur fyrr en um miðjan janúar. Hann er búinn að missa af síðustu tveimur leikjum liðsins.

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, staðfesti þetta í viðtali fyrir ótrúlegt 3-3 jafntefli gegn Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi. Mörkin úr þeim svakalega leik má sjá í spilaranum hér að ofan.

Özil, sem er búinn að skora fimm mörk og gefa fjórar stoðsendingar í ensku deildinni í vetur, missti af 2-0 sigri Arsenal gegn Crystal Palace og jafnteflinu gegn Bournemouth í gærkvöldi.

Hann var gagnrýndur fyrir frammistöðu sína í tveimur tapleikjum gegn Everton og Manchester City áður en hann lagði svo upp sigurmark Arsenal gegn West Brom á öðrum degi jóla. Síðan þá hefur hann hvorki spilað né æft.

„Ég hef ekki séð Özil í viku,“ sagði Wenger í viðtali við Sky Sports fyrir leikinn í gær. „Það var auðveld ákvörðun að taka hann ekki með hingað því hann er enn þá rúmliggjandi.“

„Hann var ekki klár í leikinn og ég býst ekki við að hann verði með í næsta leik. Hann hefur ekkert æft í eina viku.“

Özil verður að öllum líkindum ekki með Arsenal þegar liðið mætir Preston í enska bikarnum um helgina en gæti snúið aftur í leikmannahópinn þegar Skytturnar mæta Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum á útivelli 14. janúar í ensku úrvalsdeildinni.


Tengdar fréttir

Enska úrvalsdeildin kveður þessa leikmenn í bili

Sadio Mane, Wilfried Zaha og Riyad Mahrez eru meðal þeirra sem verða ekki með liðum sínum í ensku úrvalsdeildinni á næstunni. Ástæðan er að þeir eru að fara að spila með landsliðum sínum í Afríkukeppninni.

Wenger: Við neituðum að tapa þessum leik

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, sá sína menn ná stigi út úr leik í kvöld þar sem leit út fyrir að liðið væri að tapa stórt eftir 68 mínútna leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×