Enski boltinn

Wenger: Við neituðum að tapa þessum leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nathan Ake svekkir sig yfir jöfnunarmarki Arsenal í kvöld.
Nathan Ake svekkir sig yfir jöfnunarmarki Arsenal í kvöld. Vísir/Getty
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, sá sína menn ná stigi út úr leik í kvöld þar sem leit út fyrir að liðið væri að tapa stórt eftir 68 mínútna leik.

Bournemouth komst í 3-0 og gat bætt við mörkum en Arsenal skoraði þrjú mörk á síðustu tuttugu mínútum og bjargaði stigi. Þetta var eina stig Arsenal í síðustu þremur útileikjum sínum.

„Þeir byrjuðu miklu betur og við vorum 3-0 undir þegar tuttugu mínútur voru eftir. Þetta var andlegt próf. Við neituðum að tapa þessum leik,“ sagði Arsene Wenger við BBC.

„Bournemouth eiga mikið hrós skilið en það er of erfitt að mæta liði sem hefur fengið þriggja og hálfs dags frí. Það er of mikil forgjöf. Þeir eru samt með gott lið og spiluðu hraðan bolta,“ sagði Wenger.

Bournemouth spilaði síðast 31. desember en Arsenal var að spila sinn annan leik á þremur dögum.

„Við misstum tvö stig og við verðum að gera betur í næstu leikjum og vona síðan að hin liðin tapi stigum. Þetta voru ekki úrslitin sem við vildum fyrir leikinn en við sættum okkur alveg við 3-3 eftir að hafa lent 3-0 undir. Við höfðum ekki heppnina með okkur í nokkrum ákvörðunum dómarans í kvöld,“ sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×