Enski boltinn

Mourinho: Rashford gæti bætt markamet Sir Bobby og Rooney

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Marcus Rashford og Wayne Rooney fagna um helgina.
Marcus Rashford og Wayne Rooney fagna um helgina. Vísir/Getty
Wayne Rooney jafnaði markamet Sir Bobby Charlton hjá Manchester United þegar hann skoraði sitt 249. mark fyrir félagið í 4-0 sigri liðsins á Reading í enska bikarnum um helgina.

Sjá einnig: Tölurnar á bak við markamet Rooneys

En þrátt fyrir að Rooney muni líklega bæta metið innan skamms og eigi eftir að skora einhver mörk til viðbótar fyrir rauðu djöflana telur knattspyrnustjórinn Jose Mourinho að annar leikmaður geti bætt metið þegar fram í sækir.

„Það er erfitt að sjá fyrir sér í nútímaknattspyrnu hvernig hægt er að bæta met eins og þetta,“ sagði Mourinho.

„Marcus er nítján ára. Ef hann spilar með United til loka ferilsins getur hann bætt metið. En Rooney hefur skorað mikið af mörkum.“

Rashford spilaði sinn fyrsta leik í aðalliði United í febrúar á síðasta ári og hefur síðan þá skorað alls fjórtán mörk. Hann skoraði tvö mörk í sigrinum á laugardag eftir að hafa ekki náð að reima á sig markaskóna að undanförnu.

Rooney lék um helgina sinn 543. leik fyrir United og var Mourinho spurður hvað hinn 31 árs Rooney ætti mörg ár eftir á toppnum.

„Ég veit það ekki. Það er undir honum komið. Sérstaklega hugarfarinu hans. Þetta snýst allt um ástríðu, sem skiptir meira máli en allt annað. En ef það er í lagi þá getur hann spilað áfram.“


Tengdar fréttir

Tölurnar á bak við markamet Rooneys

Sem kunnugt er jafnaði Wayne Rooney markamet Sir Bobbys Charlton hjá Manchester United þegar hann skoraði fyrsta mark liðsins í 4-0 sigri á Reading í 3. umferð ensku bikarkeppninnar í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×