Enski boltinn

Rooney jafnaði markametið í stórsigri | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Wayne Rooney jafnaði markamet Sir Bobbys Charlton þegar Manchester United vann 4-0 sigur á Reading í 3. umferð ensku bikarkeppninnar í dag. Þetta var áttundi sigur United í röð í öllum keppnum.

United, sem er ríkjandi bikarmeistari, hafði mikla yfirburði í leiknum og sigurinn var síst of stór. Rooney kom heimamönnum yfir á 7. mínútu þegar hann stýrði sendingu Juans Mata í markið. Þetta var hans 249. mark fyrir United í 543. leik fyrir félagið.

Anthony Martial skoraði annað markið eftir stundarfjórðungs leik og staðan var 2-0 í hálfleik.

Marcus Rashford skoraði svo tvö mörk með fjögurra mínútna millibili seint í leiknum. Á 75. mínútu slapp hann í gegn og skoraði eftir sendingu Michaels Carrick og á 79. mínútu skoraði Rashford öðru sinni eftir skelfileg mistök Ali Al Habsi í marki Reading.

Lokatölur 4-0 og United er því komið áfram í 4. umferð ensku bikarkeppninnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×