Enski boltinn

Tölurnar á bak við markamet Rooneys

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sem kunnugt er jafnaði Wayne Rooney markamet Sir Bobbys Charlton hjá Manchester United þegar hann skoraði fyrsta mark liðsins í 4-0 sigri á Reading í 3. umferð ensku bikarkeppninnar í gær.

Strax á 7. mínútu stýrði Rooney boltanum í netið eftir sendingu Juans Mata og skoraði þar með sitt 249. mark í búningi United.

Sir Bobby var á sínum stað í stúkunni á Old Trafford og klappaði fyrir Rooney sem sló markamet hans hjá enska landsliðinu fyrir ekki svo löngu.

Eftir að Rooney jafnaði markametið í gær birti BBC tíst þar sem mörkin hans voru flokkuð.

Rooney skoraði 192 af þessum 249 mörkum með hægri fæti, 27 með þeim vinstri og 30 með höfðinu.

Rooney skoraði langflest mörkin innan vítateigs, eða 213 talsins. Rooney hefur skorað 26 mörk af vítapunktinum og fimm sinnum hefur hann skorað beint úr aukaspyrnu.

Eitt aukaspyrnumarkanna kom í fyrsta leik Rooneys fyrir United. Hann skoraði þá þrennu í 6-2 sigri á Fenerbache á Old Trafford, aðeins 18 ára og 335 daga gamall.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×