Erlent

Hylja auga til að sýna sýrlensku ungbarni samstöðu

Kjartan Kjartansson skrifar
Karim missti annað augað þegar hann lenti í stórskotaliðsárás í úthverfi Damaskusar 29. október.
Karim missti annað augað þegar hann lenti í stórskotaliðsárás í úthverfi Damaskusar 29. október. Rauði hálfmáninn í Tyrklandi
Fjöldi fólks, allt frá íþróttamönnum til stjórnmálamanna, hefur birt myndir af sér þar sem það hylur annað augað á samfélagsmiðlum undanfarið. Með því vill fólkið sýna ungum sýrlenskum dreng sem missti augað í stórskotaliðsárás samstöðu.

Karim Abdel Rahman missti augað í árás á Austur-Ghouta, úthverfi Damaskusar, fyrir tveimur mánuðum. Hann er nú orðinn að tákni um blóðbaðið og mannúðarástandið sem hefur geisað í landinu í að verða sjö ár, að því er kemur fram í frétt CNN.

Undanfarið hefur fólk sýnt samstöðu sína á samfélagsmiðlum undir myllumerkjum eins og #SamstaðaMeðKarim [e. #SolidarityWithKarim] og #StöndumMeðKarim [e. #StandWithKarim].

„Hann og móðir hans lentu í stórskotaliðsárás á vinsælum markaði í Hammuriah í Austur-Ghouta. Móðir Karims féll í árásinni og Karim fékk verulega áverka á höfuðkúpu,“ segir Samband heilbrigðisþjónustu og hjálparsamtaka sem hjálpa stríðshrjáðum Sýrlendingum.

Á meðal þeirra sem hafa sýnt Karim stuðning með þessum hætti eru franski knattspyrnumaðurinn Franck Ribery, Saad Hariri, forsætisráðherra Líbanons og Matthew Rycroft, sendifulltrúi Breta við Sameinuðu þjóðirnar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.