Benoit Hamon verður frambjóðandi Sósíalistaflokksins í frönsku forsetakosningunum sem fram fara í apríl. Þetta varð ljóst í gær.
Hamon, sem er fyrrverandi menntamálaráðherra, hafði betur í síðari umferð forvals flokksins nokkuð örugglega gegn Manuel Valls, fyrrverandi forsætisráðherra landsins. Í upphafi voru sjö í framboði.
FranÇois Hollande, núverandi forseti, er úr Sósíalistaflokknum en ólíklegt þykir að flokknum muni vegna vel í kosningunum. Nokkurrar óánægju hefur gætt með störf forsetans að undanförnu.
Sem stendur eru Repúblikaninn Francois Fillon, þjóðernissinninn Marine Le Pen og Emmanuel Macron, fyrrverandi efnahagsmálaráðherra landsins, líklegust til að ná kjöri í kosningunum og verða næsti forseti landsins.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.
