Manchester City getur unnið sinn átjánda leik í röð þegar liðið sækir Newcastle United heim í 20. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld.
Tölfræðin er ekki með Newcastle í liði en liðið hefur ekki unnið City í 19 leikjum í röð. Newcastle hefur aðeins fengið þrjú stig af 57 mögulegum í þessum 19 leikjum.
Með sigri í kvöld nær City 15 stiga forskoti á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. City-menn hafa verið óstöðvandi í vetur og það er fátt sem bendir til þess að liðið verði ekki Englandsmeistari í vor.
Newcastle getur komist upp í 12. sæti deildarinnar með sigri í leiknum á St. James' Park í kvöld.
Leikur Newcastle United og Manchester City hefst klukkan 19:45 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
