Enski boltinn

Scholes skammar Mourinho: United þarf að lifna við

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Paul Scholes fagnar marki í leik með Manchester United.
Paul Scholes fagnar marki í leik með Manchester United. vísir/getty
Paul Scholes, fyrrum leikmaður Manchester United og meðlimur í hinum fræga 1992 árgangi, vandaði Jose Mourinho, knattspyrnustjóra United, ekki kveðjurnar eftir leik liðsins og Southampton á Old Trafford í gær.

Leiknum lauk með markalausu jafntefli og var það þriðja jafnteflið sem United gerir í röð. Liðið missti Chelsea upp fyrir sig í töflunni og er nú komið í þriðja sæti deildarinnar.

„Leikmennirnir eru ekki að spila eftir bestu getu, og kannski er stjórinn að gera það líka,“ sagði Scholes við BT Sport eftir leikinn. „Léleg spilamennska heldur áfram og áfram og stjórinn verður að bera ábyrgðina á því.“

„Liðið lítur út fyrir að vera þreytt. Þeir virðast hafa spilað 50 eða 60 leiki á tímabilinu, en það er aðeins hálfnað.“

Scholes sagði liðið verða að lifna við í næstu leikjum, því eins og útlitið sé núna væri alls ekki víst að United endi í Meistaradeildarsæti að tímabilinu loknu.

„Þeir þurfa að einbeita sér og finna einhverja orku, lifna aðeins við.“

„Mourinho hefur verið í þessu starfi lengi, en það vantar leiðtoga í þetta lið. Þeir eru of góðir við hvorn annan, þeir þurfa að rífast,“ sagði Paul Scholes.

Manchester United ferðast yfir til Liverpool og mætir Gylfa Þór Sigurðssyni og félögum í Everton á morgun, nýársdag. Leikurinn er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst útsending klukkan 17:20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×