Stjarnan verður án tveggja lykilmanna í leiknum í kvöld. Fyrirliðinn Ásgerður Stefanía Baldursdóttir er ólétt og verður ekki með á tímabilinu og þá er Harpa Þorsteinsdóttir ekki klár eftir að eignast sitt annað barn í síðasta mánuði.
Sjá einnig:Gæti orðið geggjað sumar
Þetta er í fyrsta sinn í þrettán ár sem Stjarnan byrjar deildarleik án þess að annað hvort Ásgerður eða Harpa séu í liðinu. Það gerðist síðast árið 2004.
Ásgerður Stefanía er uppalin hjá Breiðabliki en kom til Stjörnunnar árið 2005 og hefur verið þar síðan. Harpa er uppalin hjá Stjörnunni en fór í Breiðablik árið 2008 og kom aftur 2011.
„Sturluð staðreynd: Stjarnan hefur ekki hafið deildarleik síðan árið 2004 þar sem hvorki ég né Adda komum við sögu. Það breytist á morgun,“ skrifaði Harpa Þorsteinsdóttir á Instagram í gær og setti mynd af sér og Ásgerði að fagna Íslandsmeistaratitlinum 2014 saman.
Stjarnan var ekki að ná góðum úrslitum á undirbúningstímabilinu en liðið vann aðeins einn leik af fimm í Lengjubikarnum og komst ekki í undanúrslit mótsins. Þá tapaði liðið 3-0 fyrir Breiðabliki í Meistarakeppni KSÍ síðastliðinn föstudag.
1. umferð Pepsi-deildar kvenna:
Í dag:
17.45 Þór/KA - Valur, Þórsvelli
19.15 Haukar - Stjarnan, Ásvöllum - Stöð 2 Sport 3 HD
19.15 Breiðablik - FH, Kópavogsvelli
19.15 Fylkir - Grindavík, Floridana-vellinum
Á morgun:
18.00 ÍBV - KR, Hásteinsvelli
21.30 Pepsi-mörk kvenna á Stöð 2 Sport HD