Íslenski boltinn

Stjarnan byrjar Íslandsmótið í fyrsta sinn í þrettán ár án Hörpu og Ásgerðar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Harpa Þorsteinsdóttir og Ásgerður Stefanía Baldursdóttir verða ekki með í kvöld.
Harpa Þorsteinsdóttir og Ásgerður Stefanía Baldursdóttir verða ekki með í kvöld. vísir/eyþór
Pepsi-deild kvenna í fótbolta hefst í dag þegar fjórir leikir af fimm fara fram í fyrstu umferðinni. Fyrsti sjónvarpsleikur sumarsins er viðureign nýliða Hauka og Íslandsmeistara Stjörnunnar en útsending hefst klukkan 19.05 á Stöð 2 Sport 3 HD.

Stjarnan verður án tveggja lykilmanna í leiknum í kvöld. Fyrirliðinn Ásgerður Stefanía Baldursdóttir er ólétt og verður ekki með á tímabilinu og þá er Harpa Þorsteinsdóttir ekki klár eftir að eignast sitt annað barn í síðasta mánuði.

Sjá einnig:Gæti orðið geggjað sumar

Þetta er í fyrsta sinn í þrettán ár sem Stjarnan byrjar deildarleik án þess að annað hvort Ásgerður eða Harpa séu í liðinu. Það gerðist síðast árið 2004.

Ásgerður Stefanía er uppalin hjá Breiðabliki en kom til Stjörnunnar árið 2005 og hefur verið þar síðan. Harpa er uppalin hjá Stjörnunni en fór í Breiðablik árið 2008 og kom aftur 2011.

„Sturluð staðreynd: Stjarnan hefur ekki hafið deildarleik síðan árið 2004 þar sem hvorki ég né Adda komum við sögu. Það breytist á morgun,“ skrifaði Harpa Þorsteinsdóttir á Instagram í gær og setti mynd af sér og Ásgerði að fagna Íslandsmeistaratitlinum 2014 saman.

Stjarnan var ekki að ná góðum úrslitum á undirbúningstímabilinu en liðið vann aðeins einn leik af fimm í Lengjubikarnum og komst ekki í undanúrslit mótsins. Þá tapaði liðið 3-0 fyrir Breiðabliki í Meistarakeppni KSÍ síðastliðinn föstudag.

1. umferð Pepsi-deildar kvenna:

Í dag:

17.45 Þór/KA - Valur, Þórsvelli

19.15 Haukar - Stjarnan, Ásvöllum - Stöð 2 Sport 3 HD

19.15 Breiðablik - FH, Kópavogsvelli

19.15 Fylkir - Grindavík, Floridana-vellinum

Á morgun:

18.00 ÍBV - KR, Hásteinsvelli

21.30 Pepsi-mörk kvenna á Stöð 2 Sport HD


Tengdar fréttir

Valskonum spáð titlinum

Valur og Breiðablik munu berjast um Íslandsmeistaratitilinn í efstu deild kvenna í sumar samkvæmt spá þjálfara, fyrirliða og forráðamanna félaganna.

Gæti orðið geggjað sumar

Keppni í Pepsi-deild kvenna hefst í kvöld með fjórum leikjum. Þorkell Máni Pétursson, einn sérfræðinga Pepsi-marka kvenna á Stöð 2 Sport, reiknar með hörkubaráttu bæði á toppi og botni deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×