Að minnsta kosti þrjú dauðsföll hafa verið rakin til Zika-veirunnar í Kólumbíu í Suður-Ameríku, að sögn heilbrigðisyfirvalda þar í landi. Um er að ræða fyrstu dauðsföllin tengd veirunni en sex önnur eru nú til rannsóknar.
Talið er að veiran hafi valdið taugasjúkdómnum Guillain-Barre, sem getur leitt til lömunar, en er læknanlegur í flestum tilfellum.
Sjá einnig: Hvað er Zika?
Zika-veiran hefur hingað til verið sögð nokkuð hættulítil en vísbendingar hafa verið um að veiran valdi fósturskaða þannig að börn fæðist vansköpuð, eða með svokallað dverghöfuð. Hún smitast með biti moskítóflugunnar en jafnframt er talið að hún geti smitast við kynmök. Þá hefur hún jafnframt greinst í þvagi og munnvatni.
Yfir tuttugu þúsund manns í Kólumbíu hafa greinst með veiruna, þar af yfir tvö þúsund þungaðar konur. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir á heimsvísu vegna veirunnar en óttast er að yfir fjórar milljónir manna muni smitast af henni.
