Erlent

Evrópuríki hvött til að bregðast við Zika

Ásgeir Erlendsson skrifar
Evrópuríki eru hvött til að bregðast við og vera viðbúin því að Zika veiran nái til álfunnar með hækkandi hitastigi. WHO segir það áhyggjuefni að veiran geti mögulega borist manna á milli með kynmökum.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lýsti því yfir á mánudag að útbreiðsla Zika veirunnar, sem nú geisar í Suður-Ameríku, sé ógn við lýðheilsu.

Í dag varaði stofnunin við því að veiran kynni að berast til Evrópu og ríki álfunnar þyrftu að vera viðbúin. Líklegast er talið að veiran berist til álfunnar með moskítóflugum í farangri ferðalanga sem koma frá smitsvæðum.

Einnig er varað við því að moskítótegundin Aedes, sem ber Zika veiruna, kynni að ná fótfestu í álfunni með hækkandi hitastigi. Tegundin er sjaldgæf í Evrópu en hefur fundist í Hollandi og á portúgölsku eyjunni Madeira.

Í gær var svo staðfest að fyrsta tilfelli veirunnar hefði komið upp í Bandaríkjunum. Talið er líklegt að veiran hafi smitast með kynmökum en hingað til hafa langflest tilfelli borist í menn vegna bita moskítóflugna. Brasilía hefur orðið verst úti en frá því að fyrsta tilfelli veirunnar greindist í maí í fyrra hafa 4000 smitast þar í landi.

Þunguðum konum hefur verið ráðið frá því að ferðast til landa í Suður-Ameríku þar sem veiran geisar. Sterkar vísbendingar eru um að veiran geti valdið fósturskaða en hætta er á að hún hafi áhrif á heilaþroska fósturs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×