Erlent

Barnshafandi kona á Spáni greinist með Zika

Atli ísleifsson skrifar
Vægur hiti, útbrot, tárubólga, vöðva- eða liðverkir og almennur slappleiki eru helstu einkenni sýkingarinnar. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Vægur hiti, útbrot, tárubólga, vöðva- eða liðverkir og almennur slappleiki eru helstu einkenni sýkingarinnar. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/AFP
Barnshafandi kona á Spáni hefur greinst með Zika-veiruna eftir að hafa verið á ferðalagi í Kólumbíu.

Þetta er fyrsta tilfellið sem upp kemur í Evrópu þar sem staðfest er að ólétt kona hafi smitast af Zika.

Í frétt Washington Post segir að konan sé á síðasta þriðjungi meðgöngu. Ekkert liggur fyrir um líðan konunnar eða fóstursins en hún dvelur nú á sjúkrahúsi í Katalóníu.

Áður hafði verið greint frá skráðum Zika-tilfellum meðal annars í Svíþjóð, Danmörku og Írlandi. Þar hafi ekki verið um barnhafandi konur að ræða.

Sjá einnig:Hvað er Zika?

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO hefur lýst yfir neyðarástandi á heimsvísu vegna Zika-veirunnar en hún dreifir sér hratt. Óttast er að allt að fjórar milljónir manna muni smitast af henni og kann biðin eftir bóluefni að verða nokkur enda tekur það tíma að fá slík efni samþykkt frá þar til bærum yfirvöldum.

Vægur hiti, útbrot, tárubólga, vöðva- eða liðverkir og almennur slappleiki eru helstu einkenni sýkingarinnar. Þau gera oftast vart við sig tveimur til sjö dögum eftir bit og standa yfir í jafn langan tíma en einungis einn af hverjum fjórum finnur fyrir einkennum.

Þá eru jafnframt vísbendingar um að veiran valdi fósturskaða þannig að börn fæðist vansköpuð, eða með svokallað dverghöfuð. Veiran smitast með biti moskítóflugunnar en jafnframt leikur grunur á að hún geti smitast við kynmök. Eitt slíkt dæmi hefur komið upp, en það var í Bandaríkjunum og hafði sá smitaði verið á ferðalagi þar sem faraldurinn geisar. Veiran fannst í sæði sjúklingsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×