Erlent

Finnskur nýnasisti fær tveggja ára dóm fyrir líkamsárás sem leiddi til dauða

atli ísleifsson skrifar
Jesse Torniainen er liðsmaður í Norrænu andspyrnuhreyfingunni.
Jesse Torniainen er liðsmaður í Norrænu andspyrnuhreyfingunni. Vísir/AFP
Dómstóll í Finnlandi dæmdi í dag finnska nýnasistann Jesse Torniainen í tveggja ára fangelsi fyrir líkamsárás sem leiddi til dauða manns við mótmæli í höfuðborginni Helsinki í september.

YLE greinir frá þessu. Torniainen er meðlimur í hinni svokölluðu Norrænu andspyrnuhreyfingu og var dæmdur fyrir grófa líkamsárás. Hann var þó sýknaður af þeim ákærulið sem sneri að því að hann hafi verið valdur að dauða manns.

Saksóknarar höfðu krafist milli fimm og hálfs til sex ára fangelsisdóms með vísun í hugmyndafræðilegar ástæður árásarinnar og að Torniainen eigi að baki langan sakaferil.

Torniainen réðst að hinum 28 ára Jimi Karttunen við mótmæli nýnasista fyrir utan aðallestarstöðina í Helsinki þann 10. september.

Karttunen hafði þá lent upp á kant við nýnasistana sem höfðu verið að dreifa fréttabréfi samtakanna. Á Torniainen að hafa hlaupið á eftir manninum, sparkað í bringu hans svo hann féll um koll og sló höfuðið í stéttina.

Karttunen lést nokkrum dögum síðar en blætt hafði inn á heila hans skömmu eftir að hann var úrskrifaður af sjúkrahúsi, þangað sem hann var fluttur eftir að hafa orðið fyrir árásinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×