Enski boltinn

Tilboði West Brom í Schneiderlin hafnað

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Schneiderlin er í frystinum hjá Mourinho.
Schneiderlin er í frystinum hjá Mourinho. vísir/getty
Manchester United hafnaði tilboði West Brom í franska miðjumanninn Morgan Schneiderlin.

José Mourinho, knattspyrnustjóri United, greindi frá þessu á blaðamannafundi í dag. Þar sagði hann einnig að það væri ekki inni í myndinni að lána Anthony Martial til Sevilla.

„Við höfum ekki fengið eitt einasta tilboð sem við ætlum að samþykkja,“ sagði Mourinho.

„Ég vil ekki selja leikmenn. Félagið og stjórnin eru sammála mér en eins og ég hef áður sagt, ef leikmaður er ekki að spila mikið og vill fara höfum við engan rétt til að koma í veg fyrir að hann fari, að því gefnu að forsendurnar séu réttar.“

Talið er að West Brom hafi boðið 13 milljónir punda í Schneiderlin sem hefur aðeins spilað 11 mínútur í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Everton hefur einnig sýnt Frakkanum áhuga.

Á blaðamannafundinum greindi Mourinho einnig frá því að Wayne Rooney væri ekki orðinn leikfær og kæmi því ekkert við sögu gegn Middlesbrough á morgun.

United, sem hefur unnið fjóra leiki í röð, er í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×