Erlent

Árásin í Berlín: Leita að Túnisa á sjúkrahúsunum

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla hefur aukið eftirlit á götum Berlínar í kjölfar árásarinnar.
Lögregla hefur aukið eftirlit á götum Berlínar í kjölfar árásarinnar. Vísir/AFP
Lögregla í Þýskalandi leitar nú að manni frá Túnis í tengslum við hryðjuverkaárásina í Berlín sem framin var á mánudagskvöldið.

Maðurinn á að vera rúmlega tvítugur að aldri. Lögregla hefur meðal annars leitað að manninum á öllum sjúkrahúsum í Berlín og í sambandsríkinu Brandenburg. RBB greinir frá þessu.

Lögregla hefur enn ekki staðfest fréttirnar en blaðamannafundur verður haldinn innan skamms.

Spiegel greinir frá því að skjöl eiga að hafa fundist í vörubílnum sem gefa tilefni til að ná tali af manninum. Þá eiga einnig að hafa fundist lífsýni mögulegs árásarmanns í vörubílnum sem notaður var í árásinni þar sem tólf manns fórust og tugir særðust.

Bæði Bild og Spiegel segja manninn heita Anis A, búa yfir fjölda vegabréfa og vera á aldrinum 21 til 23 ára. Hann hefur áður komið við sögu lögreglu.

Skjalið sem á að hafa fundist í bílnum er gefið út í Norðurrín-Vestfalíu. Árið 2012 ferðaðist maðurinn til Ítalíu og í júlí 2015 sneri hann aftur til Þýskalands. Hann á að hafa haldið til í Norðurrín-Vestfalíu og Berlín, en ekkert hefur spurst til hans síðan í byrjun desember. Süddeutsche Zeitung segir að maðurinn á að hafa notast við átta mismunandi dulnefni.

Lögregla handtók mann, pakistanskan hælisleitanda, skömmu eftir árásina á mánudagskvöldið, en honum var sleppt í gær vegna ónægra sönnunargagna. Hann neitar sök í málinu.

Lögreglu hefur borist rúmlega fimm hundruð ábendingar frá almenningi vegna málsins, meðal annars myndir og myndskeið frá vettvangi árásarinnar.

Hryðjuverkasamtökin ISIS segja að stríðsmaður samtakanna hafi framkvæmt árásina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×