Erlent

Árásin í Berlín: Pólski vörubílstjórinn skotinn nokkru fyrir árásina

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla rannsakar nú hvort að Anis Amri kunni mögulega að hafa verið með samverkamenn.
Lögregla rannsakar nú hvort að Anis Amri kunni mögulega að hafa verið með samverkamenn. Vísir/AFP
Pólski vörubílstjórinn Lukasz Urban var skotinn í höfuðið nokkrum klukkustundum áður en Túnisinn Anis Amri ók vörubílnum inn á jólamarkaðinn á Breitscheidplatz í Berlín þann 19. desember. Þýskir fjölmiðlar greina frá þessu og vísa í skýrslu réttarlækna.

Urban var í hópi tólf manna sem fórust í árásinni, en auk þeirra særðust tugir til viðbótar. Eftir árásina fannst Urban stunginn og skotinn í vörubílnum og bárust fréttir af því að hann hefði komið í veg fyrir að Amri hafi banað fleirum.

Þýska blaðið Bild segir nú frá því að læknar útiloki að hinn 37 ára Urban hafi verið með meðvitund þegar árásin var gerð. Krufning hafi leitt í ljós að hann hafi verið skotinn milli 16:30 og 17:30 að staðartíma og að hann hafi misst mikið blóð.

Frændi Urban hafði áður greint frá því að hann hafi misst samband við Urban um klukkan 16, en árásin var gerð skömmu eftir klukkan 20.

Bild segir mögulegt að Urban hafi verið á lífi í farþegasætinu þegar árásin var gerð en að útilokað hafi verið fyrir hann að grípa í stýrið og hafa þannig áhrif á akstursleið vörubílsins.

Hinn 24 ára Amri var skotinn til bana af lögreglu í Mílanó á Ítalíu þann 23. desember. Á myndbandi sem áróðursdeild ISIS birti mátti sjá hann sverja hollustu við samtökin.

Lögregla rannsakar nú hvort að hann kunni mögulega að hafa verið með samverkamenn. Á upptöku úr öryggismyndavél á Lyon-Part-Dieu lestarstöðinni má sjá Amri skömmu áður en hann steig um borð í lest á leið til Chambery á leið sinni til Mílano. Þar virtist hann vera einn á ferð.


Tengdar fréttir

Móðir Anis Amri segir lögregluna hafa brugðist

Anis Amri féll í fyrrinótt í skotbardaga við lögreglumenn í Mílanó á Ítalíu. Hans hafði verið leitað um alla Evrópu vegna árásarinnar á jólamarkaðinn í Berlín á mánudag.

Bílstjórar safna fyrir Urban

Bresk söfnun vörubílsstjóra fyrir fjölskyldu Pólverjans Lukasz Urban, sem barðist við hryðjuverkamanninn Anis Amri skömmu áður en hann ók inn á jólamarkað í Berlín, er kominn upp í rúm 165 þúsund pund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×