Erlent

Fresta atkvæðagreiðslu um nýjar landnemabyggðir

Atli Ísleifsson skrifar
Samkvæmt alþjóðalögum eru landnemabyggðirnar taldar ólöglegar þó að Ísraelar séu því ekki sammála.
Samkvæmt alþjóðalögum eru landnemabyggðirnar taldar ólöglegar þó að Ísraelar séu því ekki sammála. Vísir/EPA
Nefnd ísraelskra yfirvalda hefur frestað atkvæðagreiðslu varðandi hvort heimila beri byggingu nærri fimm hundruð nýrra íbúða á landnemabyggðum í austurhluta Jerúsalem.

Í frétt BBC segir að ákvörðunin um frestun atkvæðagreiðslunnar hafi verið tekin í kjölfar sérstakrar beiðni þess efnis frá forsætisráðherranum Benjamin Netanyahu.

Bandaríkjastjórn ákvað að beita ekki neitunarvaldi sínu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna gegn uppbyggingu landnemabyggða Ísraela síðastliðinn föstudag.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hyggst flytja ræðu um deilur Ísraela og Palestínumanna síðar í dag og er hennar beðið með mikilli eftirvæntingu.

Netanyahu hefur harðlega gagnrýnt Bandaríkjastjórn í kjölfar atkvæðagreiðslunnar í öryggisráðinu og hefur Ísraelsstjórn hótað því að stöðva greiðslur sínar til Sameinuðu þjóðanna.

Þá hefur Ísraelsstjórn haldið því fram að þau hafi gögn undir höndum sem sýna fram á að ríkisstjórn Barack Obama Bandaríkjaforseta hafi sjálf staðið að baki ályktuninni. Þessu hafnar talsmenn Bandaríkjastjórnar.

Um hálf milljón Ísraela búa í um 140 landnemabyggðum Ísraelsstjórnar á hernumdu svæðunum sem hafa verið í byggingu frá árinu 1967.


Tengdar fréttir

Netanyahu segir ályktun Öryggisráðsins svívirðilega

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, segir það svívirðilegt að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafi samþykkt ályktun þar sem kallað er eftir því að Ísraelar stöðvi uppbyggingu frekari landnemabyggða á Vesturbakkanum og austurhluta Jerúsalem.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×