Erlent

Mahmoud Abbas vonar að uppbygging landnemabyggða sé senn á enda

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Mahmoud Abbas, forseti Palestínu.
Mahmoud Abbas, forseti Palestínu. Vísir/Getty
Forseti Palestínu, Mahmoud Abbas vonar að ályktun öryggisráðsins um landnemabyggðir Ísraela þýði að uppbygging landnemabyggða sé senn á enda. Guardian greinir frá.

Abbas tjáði sig þar á fundi Fatah hreyfingarinnar í dag. „Ályktunin sannar að heimurinn hafnar landnemabyggðunum, þar sem þær eru ólöglegar á hernumdum löndum okkar.“

Sjá einnig: Öryggisráðið kallar eftir því að Ísraelar stöðvi uppbyggingu landnemabyggða

„Ályktunin leggur grunninn að alvöru friðarviðræðum“ sagði Abbas sem sagðist jafnframt vona að alþjóðlegur friðarfundur um málefni Miðausturlanda sem haldinn verður í París 15.janúar næstkomandi geti orðið vettvangur þar sem hægt verður að hefjast handa við að ljúka landnámi Ísraela.

Talið er að tugir ríkja gætu stutt alþjóðlega aðgerðaráætlun í friðarviðræðum á milli Ísrael og Palestínu á fundinum, en ríkisstjórn Ísraela hyggst ekki taka þátt í fundinum í París og segir að slík aðgerðaráætlun grafi undan samningaviðræðum milli Ísraela og Palestínumanna.

Forsætisráðherra Ísraela, Benjamín Netanyahu hefur ítrekað kallað eftir því að Abbas mæti til viðræðna við sig án fyrirfram settra skilyrða, en Abbas hefur neitað að verða við því þar til Ísraelar enda uppbyggingu á landnemabyggðum sínum.

Sjá einnig: Netanyahu segir ályktun Öryggisráðsins svívirðilega

Yfirvöld í Jerúsalem eru talin líkleg til þess að samþykkja þúsundir nýrra landnemabygginga í austurhluta borgarinnar í þessari viku, þrátt fyrir ályktun öryggisráðsins.

Palestínumenn hafa gert tilkall til austurhluta Jerúsalem sem og Vesturbakkans sem hluta af framtíðarríki sínu.


Tengdar fréttir

Netanyahu segir ályktun Öryggisráðsins svívirðilega

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, segir það svívirðilegt að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafi samþykkt ályktun þar sem kallað er eftir því að Ísraelar stöðvi uppbyggingu frekari landnemabyggða á Vesturbakkanum og austurhluta Jerúsalem.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×