Erlent

Segja aðgerðirnar til marks um „óútreiknanlega og árásargjarna“ utanríkisstefnu

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimir Putin, forseti Rússlands.
Vladimir Putin, forseti Rússlands. Vísir/AFP
Rússar segja refsiaðgerðir Bandaríkjanna vera til marks um „óútreiknanlega og árásargjarna“ utanríkisstefnu Barack Obama. Þar að auki telja þeir aðgerðirnar vera óréttlátar og ólöglegar samkvæmt alþjóðalögum. Þeir vara við því að aðgerðirnar muni ganga frá öllum samskiptum Rússlands og Bandaríkjanna. Rússar segja allar ásakanir um tölvuárásir og tilraunir til að hafa áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum vera rangar.

Bandaríkin tilkynntu í kvöld viðskiptaþvinganir gegn Rússlandi og að 35 erindrekar yrðu reknir úr landi.

Sjá einnig: Bandaríkin reka 35 rússneska erindreka úr landi

Talsmaður Vladimir Putin, forseta Rússlands, segir að aðgerðunum verði svarað en hins vegar liggi ekki á viðbrögðum Rússlands. Stutt sé í að nýr forseti taki við völdum í Bandaríkjunum.

Sendiráð Rússlands í Bretlandi hefur tjáð sig um aðgerðir Bandaríkjanna á Twitter.
„Við búumst við því að okkur takist að losna við svo klaufalegar aðgerðir,“ er haft eftir Dmitry Peskov, talsmanni Putin, á vef RT. Enn fremur segist hann telja að Bandaríkin og Rússland muni geta tekið sameiginleg skref í átt að bættum samskiptum ríkjanna.

Peskov segir að Putin muni skipa fyrir um „viðeigandi“ viðbrögð gegn refsiaðgerðum Bandaríkjanna.

Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, gæti snúið ákvörðun ríkisstjórnar Obama við þegar hann tekur við völdum þann 20. janúar. Ónefndur en háttsettur embættismaður sem Reuters ræddi við segir hins vegar að það væri ekki ráðlegt. Engin ástæða sé til þess að trúa að Rússar ætli sér að hætta afskiptum af kosningum annarra ríkja. Þar á meðal í evrópskum ríkjum sem séu bandamenn Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×