Erlent

Sendiherra Bandaríkjanna hjá SÞ harðorður á fundi Öryggisráðsins: „Kunnið þið ekki að skammast ykkar?“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Samantha Power.
Samantha Power. vísir/getty
Samantha Power, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, var harðorð í garð Bashar al-Assad, Sýrlandsforseta, Rússa og Írana sem stutt hafa Sýrlandsstjórn með ráðum og dáð í borgarastyrjöldinni sem geisað hefur í landinu frá árinu 2011.  Sagði hún Assad, Rússa og Írana hafa sett óbreytta borgara í Aleppo í snöru með árásum sínum í borginni.  

Spurði Power hvort að þessi þrjú aðildarríki Sameinuðu þjóðanna gætu ekki skammast sín fyrir glæpina sem þau hefðu framið gegn óbreyttum borgurum í Aleppo.

Power ávarpaði Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna í dag á neyðarfundi ráðsins sem boðaður var vegna blóðbaðsins sem geisað hefur í Aleppo síðastliðinn sólarhring eða svo, en í gær staðfestu Sameinuðu þjóðirnar að fjöldamorð hefði verið framið í borginni þar sem 82 saklausir borgarar voru myrtir af stjórnarhernum í áhlaupi þeirra á austurhluta Aleppo sem var á valdi uppreisnarmanna.

Undir kvöld var svo greint frá því að samkomulag hefði náðst milli Rússa og Tyrkja um það að enda bardagana í austurhluta Aleppo. Uppreisnarmönnum, sem og þeim óbreyttu borgurum sem það kjósa, yrði gert kleift að yfirgefa borgina en samningurinn þýðir að hún er nú öll á valdi stjórnarhers Assad.

Á fundi Öryggisráðsins í dag beindi Power orðum sínum að Sýrlandsstjórn, Rússum og Írönum. Hún sagði ástandið sem ríkt hefur í Aleppo undanfarið, þar sem tugþúsundir borgarar hafa verið innlyksa mánuðum saman, væri á ábyrgð stjórnvalda í þessum ríkjum.

„Þetta er snaran ykkar. Þið ættuð að skammast ykkar en svo virðist sem þetta sé ykkur frekar hvatning. Þið eruð að skipuleggja næstu árás. Kunnið þið virkilega ekki að skammast ykkar? Er ekkert sem fær ykkur til að skammast ykkar?“ spurði Power.

Vitaly Churkin, sendiherra Rússa hjá Sameinuðu þjóðunum, svaraði Power. Hann sagði undarlegt að hlusta á hana „líkt og hún væri einhver móðir Teresa.“ Churkin minnti Power síðan á hvaða land hún væri sendiherra fyrir og þátttöku Bandaríkjanna í hinum ýmsu stríðum gegnum árin.

Þrátt fyrir samkomulagið sem náðist í dag um Aleppo er það þó ekki svo að stríðinu í Sýrlandi sé lokið. Fjöldi ólíkra uppreisnarhópa er enn með tögl og haldir í Idlib-sýslu í norðvesturhluta landsins. Talið er að stjórnarherinn muni næst sækja fram þar og reyna að brjóta uppreisnina á bak aftur.

Þá berjast uppreisnarmenn við liðsmenn Íslamska ríkisins í norðausturhluta Sýrlands. Íslamska ríkið hefur einnig barist við stjórnarherinn, meðal annars um völd í borginni Palmyra sem er nú aftur á valdi liðsmanna hryðjuverkahópsins eftir að hafa verið á valdi Sýrlandsstjórnar síðan í mars.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×