Erlent

Duterte segist sjálfur hafa drepið fólk

Atli Ísleifsson skrifar
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja.
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja. Vísir/AFP
Rodrigo Duterte, hinn umdeildi forseti Filippseyja, segir að hann hafi sjálfur drepið grunaða glæpamenn þegar hann gegndi embætti borgarstjóra í Davao. Hann segist hafa drepið til að sýna lögreglumönnum fordæmi.

Í frétt SVT kemur fram að Duterte hafi látið orðin falla á fundi með viðskiptamönnum þar sem hann ræddi baráttu sína gegn fíkniefnum og glæpamönnum. Þúsundir manna hafa verið drepnir án dóms og laga frá því að Duterte tók við forsetaembættinu í júní.

„Í Davao var ég vanur að gera það sjálfur. Bara til að sýna strákunum [lögreglu] að ef ég get gert það þá geta þeir það líka,“ sagði Duterte.

Hann kvaðst jafnframt hafa farið í eftirlitsferðir á mótorhjóli sínu þar sem hann ók um á götum borgarinnar. „Ég leitaði virkilega að átökum þannig að ég gæti drepið.“

Mannréttindasamtök eru í hópi þeirra sem hafa sakað forsetann um að hafa starfrækt sérstakar dauðasveitir í Davao sem hafi banað rúmlega þúsund grunuðum glæpamönnum.

Duterte hefur áður bæði játað og neitað að hafa átt þátt í starfsemi dauðasveitanna.


Tengdar fréttir

Segir hreinsanir sínar njóta stuðnings Donalds Trump

Áætlun Rodrigo Duterte, forseta Filippseyja, um að drepa alla grunaða fíkniefnasala og neytendur í landinu virðist eiga hljómgrunn hjá verðandi forseta Bandaríkjanna - ef marka má Duterte sjálfan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×