Erlent

Vinkona forseta Suður-Kóreu neitar sök

Atli Ísleifsson skrifar
Choi Soon-sil.
Choi Soon-sil. Vísir/AFP
Vinkona Park Geun-hye, forseta Suður-Kóreu, sem hefur verið miðpunktur mikils hneykslismáls í landinu að undanförnu, neitaði sök í málinu þegar réttarhöld hófust í málinu í höfuðborginni Seúl í morgun.

Vinkonan, Choi Soon-sil, er sökuð um fjársvik og að hafa haft ólögmæt afskipti af málefnum ríkisins og fleira. Á hún að hafa þrýst á stórfyrirtæki til að leggja sé til stofnana sem hún sjálf stjórnar.

Reuters greinir frá því að saksóknarar saki forsetann Park um að hafa átt þátt í málinu, en hún lýtur friðhelgi í skjóli embættisins.

Ekkert hafði sést til Choi síðan í lok október og laut hún höfði og var klædd gráum fangabúningi þegar tveir fangaverðir færðu hana fyrir dómara.

Suður-kóreska þingið ákvað fyrr í mánuðinum að ákæra Park fyrir embættisglöp, og þar með svipta hana völdum. Stjórnlagadómstóll landsins hefur nú 180 daga til að annað hvort staðfesta eða snúa við ákvörðuninni.

Forsætisráðherrann Hwang Kyo-ahn fer með völd forseta á meðan stjórnlagadómstóllinn hefur málið til meðferðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×