Erlent

Skipulögðu árás á Disneyland

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Menn sem lögreglan í Frakklandi handtók um síðustu helgi höfðu skipulagt hryðjuverkaárásir í París þann 1. desember. Meðal skotmarka sem þeir höfðu skoðað var Disneyland og verslunargatan Champs Elysees, auk opinberra bygginga.

Samkvæmt Reuters voru fimm menn handteknir, en upp komst um áætlun þeirra vegna gagna sem fundust á snjallsíma.

Sagt er frá því á vef France24 að gæsluvarðhald hafi verið framlengt yfir mönnunum í gær. Tveir aðrir menn hafa verið handteknir, en þeim hefur verið sleppt úr haldi.

Neyðarástandi var lýst yfir í Frakklandi eftir árásirnar í París í fyrra, en þau veita yfirvöldum í Frakklandi víðari heimildir til að framkvæm handtökur og leitir. Rúmlega 230 manns hafa látið lífið í árásum í Frakklandi frá því í janúar 2015. Þar á meðal 130 í árásunum í París í nóvember í fyrra.

Öryggi mun líklega spila stóra rullu í forsetakosningunum í Frakklandi næsta vor. Embættismenn óttast að með áframhaldandi aðgerðum gegn ISIS í Sýrlandi og Írak muni vígamenn samtakanna snúa heim í auknu mæli. Þar muni þeir gera árásir í nafni samtakanna en fjöldinn allur af Frökkum hafa farið til Sýrlands og Írak til að berjast fyrir ISIS.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.