Enski boltinn

Mourinho kærður fyrir að sparka í vatnsbrúsa

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mourinho röltir upp í stúku.
Mourinho röltir upp í stúku. vísir/getty
Enska knattspyrnusambandið hefur kært José Mourinho, knattspyrnustjóra Manchester United, vegna hegðunar hans á hliðarlínunni í leik Man Utd og West Ham á Old Trafford í gær. Leiknum lyktaði með 1-1 jafntefli.

Mourinho snöggreiddist þegar dómari leiksins, Jon Moss, gaf Paul Pogba gula spjaldið fyrir leikaraskap og lét reiði sína bitna á nálægum vatnsbrúsa.

Moss brást snögglega við og sendi Mourinho upp í stúku. Þetta var önnur brottvísun Portúgalans á tímabilinu en hann var einnig sendur upp í stúku fyrir mótmæli í leik gegn Burnley 29. október.

Mourinho fékk eins leiks bann þá og er því væntanlega á leið í tveggja leikja bann núna.

Mourinho á væntanlega einnig von á vænri sekt en enska knattspyrnusambandið hefur í gegnum tíðina verið duglegt að sekta hann. Það sem af er þessu tímabili hefur hann þurft að greiða 58.000 pund í sektir.

Man Utd situr í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 20 stig eftir 13 umferðir. Liðið er 11 stigum á eftir toppliði Chelsea. Man Utd hefur ekki farið jafn illa af stað í deildinni frá tímabilinu 1989-90.


Tengdar fréttir

Mourinho rekinn upp í stúku

Jose Mourinho var rekinn upp í stúku af Jonathan Moss dómara í leiknum gegn West Ham sem nú er í gangi í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×