Enski boltinn

United náði aðeins jafntefli gegn West Ham | Sjáðu mörkin

Manchester United og West Ham skildu jöfn þegar þau mættust á Old Trafford í ensku úrvalsdeildinni í dag. Þetta var fjórða jafntefli United á heimavelli í röð.

Það blés ekki byrlega fyrir Manchester United í upphafi. Strax á 2.mínútu kom Diafra Sakho West Ham yfir með skalla eftir aukaspyrnu Dimitri Payet. Zlatan Ibrahimovic var að dekka Sakho en missti hann frá sér við markteiginn.

Zlatan átti þó eftir að bæta fyrir þau mistök. Hann jafnaði metin á 21.mínútu með skalla eftir frábæra sendingu Paul Pogba. Sjötta deildarmark Svíans.

Sex mínútum síðar var Jose Mourinho rekinn upp í áhorfendastúku fyrir mótmæli. Hann var afar ósáttur með gult spjald sem Paul Pogba fékk frá Jonathan Moss dómara fyrir leikaraskap og lét Moss heyra það. Dómurinn var þó hárréttur hjá Moss og Mourinho settist í stúkuna.

West Ham vildi fá vítaspyrnu rétt fyrir hálfleik þegar boltinn fór í hönd Ander Herrara inni í vítateig en ekkert var dæmt. Staðan í hálfleik var því 1-1.

Síðari hálfleikur var svo hin besta skemmtun. United fékk fjölmörg færi til að komast yfir en Darren Randolph í marki West Ham var magnaður. Jesse Lindgard náði að koma boltanum í netið eftir stangarskot Henrikh Mkhitarian en var dæmdur rangstæður.

Bæði lið fengu svo færi á lokamínútum til að skora. Zlatan Ibrahimovic komst einn í gegn en missti boltann of langt frá sér og svo komst Ashley Fletcher í þröngt færi, einn gegn David De Gea sem varði vel í horn.

Lokatölur urðu því 1-1 og fjórða jafntefli Manchester United á heimavelli í röð því staðreynd. Það eru heil 26 ár síðan United vann ekki í fjórum heimaleikjum í röð. Þeir eru í 6.sæti með 20 stig en West Ham er í 16.sæti með 12 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×