Enski boltinn

Mourinho hefur borgað 40 milljónir í sektir og ein stór á leiðinni | Sjáðu sektirnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, er duglegur að mótmæla dómum.
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, er duglegur að mótmæla dómum. Vísir/Getty
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, missti enn á ný stjórn á sér um helgina þegar lið hans gerði 1-1 jafntefli á heimavelli á móti West Ham.

Mourinho brjálaðist á 27. mínútu eftir að Paul Pogba fékk að líta gula spjaldið fyrir leikaraskap sem var hárréttur dómur hjá Jon Moss, dómarara leiksins.

Jon Moss rak portúgalska stjórann upp í stúku og þar horfði hann upp á sína menn mistakst enn einu sinni að landa sigri á heimavelli. Heimasigrarnir eru nú aðeins tveir í sjö leikjum á Old Trafford í ensku úrvalsdeildinni í vetur.

Jose Mourinho var nýkominn til baka eftir að hafa verið rekinn upp í stúku og tekið í framhaldinu út eins leiks bann.

Hann fer væntanlega í tveggja leikja bann að þessu sinni auk þess að fá væna sekt fyrir framkomu sína.

Daily Mail tók saman sektirnar sem enska knattspyrnusambandið og evrópska knattspyrnusambandið hafa dæmt Jose Mourinho til að greiða á meðan hann hefur starfað í ensku úrvalsdeildinni.

Mourinho var búinn að borga 288 þúsund pund í sektir fyrir atburði helgarinnar en það eru 40,6 milljónir íslenskra króna á núvirði.

Allar sektir Jose Mourinho í ensku úrvalsdeildinni.

Knattspyrnustjóri Chelsea

Janúar 2005 - 5 þúsund pund

(Sakaði Man. United um að svindla í undanúrslitaleik enska deildabikarsins)

Febrúar 2005 - 9 þúsund pund og 2 leikja bann

(Gagnrýndi dómarann Anders Frisk eftir 2-1 tap á móti Barcelona)

Júní 2005 - 75 þúsund pund

(Tala ólöglega við Ashley Cole)

Október 2013 - 8 þúsund pund

(Anthony Taylor rak hann upp í stúku í 4-1 sigri á Cardiff)

Mars 2014 - 8 þúsund pund

(Chris Foy rak hann upp í stúku í 1-0 tapi fyrir Aston Villa)

Apríl 2014 - 10 þúsund pund

(Fyrir að kalla dómarann „frábæran“ eftir 2-1 tap fyrir Sunderland)

Janúar 2015 - 25 þúsund pund

(Hélt því fram að það væri samsæri meðal dómara í að dæma að móti hans liði)

Október 2015 - 50 þúsund pund og 1 leiks bann

(Gagnrýndi dómarana eftir 3-1 tap á móti Southampton)

Nóvember 2015 - 40 þúsund pund og 1 leiks bann

(Öskraði á Jon Moss dómara í hálfleik í tapleik á móti West Ham)

Knattspyrnustjóri Manchester United

Nóvember 2016 - 58 þúsund pund og 1 leiks bann

(Rekinn upp í stúku í leik á móti Burnley og fyrir að tala um Anthony Taylor dómara fyrir leik United og Liverpool)

Nóvember 2016 - ??

(Rekinn upp í stúku í leik á móti West Ham)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×