Erlent

Baghdadi sagður sofa með sprengjubelti

Samúel Karl Ólason skrifar
Abu Bakr al-Baghdadi.
Abu Bakr al-Baghdadi. Vísir/GETTY
Árásin á Mosul, höfuðvígi Íslamska ríkisins í Írak, virðist taka verulega á vígamenn samtakanna sem og forystu. Aftökum hefur fjölgað verulega og vígamennirnir eru sagðir þjást af ofsóknarbrjálæði. Þá er Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi ISIS, sagður hafa sofið með sprengjubelti utan um sig af ótta við að vera handsamaður.Samkvæmt Reuters fréttaveitunni hefur írakska hernum borist textaskilaboð frá aðila sem heldur til í borginni um nokkurra vikna skeið. Sá aðili hefur lýst sífellt stressaðri vígamönnum og hefur hann einnig lýst því sem hefur verið að gerast í borginni.Fréttaveitan hefur staðfest frá hverjum skilaboðin eru en ekki er hægt að staðfesta að upplýsingarnar séu réttar. Hins vegar segja embættismenn að upplýsingarnar stemmi við þá mynd sem yfirvöld hafa af stöðunni í borginni.Í skilaboðunum kemur fram að uppljóstrarar og svikarar séu reglulega teknir af lífi í Mosul. Þá er Baghdadi sagður vera hættur að sjást opinberlega og að hann haldi til í göngum undir borginni. Bresk yfirvöld segja þó að líklega hafi Baghdadi yfirgefið borgina í byrjun mánaðarins.Yfirvöld Írak eru sammála því og telja Baghdadi vera í Nineveh héraði við landamæri Sýrlands.Háttsettir embættismenn Kúrda sögðu Reuters að aftökurnar séu merki um að Íslamska ríkið sé að missa tökin. Fall Mosul væri þó enginn endir á átökum við ISIS.„Þeir munu snúa sér aftur að óhefðbundnum hernaði, og sjálfsmorðsárásum mun fjölga á sjálfstjórnarsvæðinu, í írökskum borgum og annars staðar,“ segir Masrour Barzani, formaður öryggisráðs sjálfstjórnarsvæðisins. „Baráttan við ISIS verður löng. Ekki bara hernaðarlega heldur einnig efnahagslega og hugsjónalega.“

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.