Erlent

Dylan sagði ekki orð um Nóbelsverðlaun sín á tónleikum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Bob Dylan minntist ekki einu orði á verðlaunin á tónleikum sínum í gær.
Bob Dylan minntist ekki einu orði á verðlaunin á tónleikum sínum í gær. Vísir/Getty
Bandaríska tónskáldið Bob Dylan kom fram á tónleikum á sínum fyrstu tónleikum í gær eftir að ljóst var að hann hafði hlotið bókmenntaverðlaun Nóbels. Hann minntist ekki einu orði á verðlaunin.

Dylan kom fram á tónleikum í Las Vegas í gærkvöldi. Viðstaddir voru, auk aðdáenda Dylan, fjölmargir fjölmiðlamenn, sem vonuðust eftir því að fá viðbrögð frá Dylan vegna verðlaunanna. Ekkert hefur heyrst í honum eftir að tilkynnt var um verðlaunin í gær og hefur Nóbelsnefndinni meðal annars ekki tekist að ná tali af Dylan.

Enginn breyting varð á því í gær í Las Vegas á Cosmopolitan-staðnum 16 tímum eftir að ljóst varð að Dylan hafði hlotið verðlaunin. Dylan var 90 mínútur á sviði og sagði í raun ekki orð á milli laga.

Töluverð öryggisgæsla var á tónleikunum og var stranglega bannað að taka myndir en allar myndavélar voru gerðar upptækar fyrir utan tónleikasalinn. Öryggisverðir gengu um salinn á meðan á tónleikunum stóð og hentu öllum þeim sem ekki virtu bann við myndatökum út.

Dylan hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels fyrir textasmíð sína og framlag til bandarískrar tónlistar. Í kvöld heldur hann tónleika í bænum Indio í Kaliforníuríki og verður fróðlegt að sjá hvort að Dylan tjái sig á einhvern hátt um verðlaunin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×