Erlent

Evrópuþingið samþykkti Parísarsamninginn

Atli Ísleifsson skrifar
Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, ávarpaði Evrópuþingið fyrir atkvæðagreiðsluna í dag.
Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, ávarpaði Evrópuþingið fyrir atkvæðagreiðsluna í dag. Vísir/AFP
Mikill meirihluti Evrópuþingmanna greiddu atkvæði með fullgildingu Parísarsamningsins um loftslagsmál í dag. 610 þingmenn greiddu atkvæði með fullgildingu, en 38 gegn.

Ítalski Evrópuþingmaðurinn Giovanni La Via, sem hélt utan um meðferð Evrópuþingsins á samningnum, segir daginn sögulegan og niðurstöðu frábærs samstarfs þingmanna. Umhverfisráðherrar aðildarríkjanna náðu samkomulagi um fullgildingu samningsins á föstudaginn.

Nú síðdegis munu aðildarríkin svo taka formlega ákvörðun um fullgildingu. Það er gert með skriflegum hætti, en fullgildingargögnin verða svo send til Sameinuðu þjóðanna á föstudag.

Parísarsamningurinn mun taka gildi eftir rúman mánuð þar sem rúmlega 55 ríki, sem standa fyrir rúmlega 55 prósent af losun gróðurhúsalofttegunda, hafa nú fullgilt samninginn.

Ísland fullgilti samninginn í síðasta mánuði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×