Erlent

Sex ára drengur slasaðist eftir að Samsung Galaxy Note 7 sprakk

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Síminn er kannski vatnsheldur en hann er ekki sprengiheldur.
Síminn er kannski vatnsheldur en hann er ekki sprengiheldur. Vísir/Getty
Sex ára gamall drengur var fluttur á sjúkrahús í New York eftir að Samsung Galaxy Note 7 sími sprakk í höndunum á honum. Vandræði Samsung vegna símans fara vaxandi.

„Hann var að horfa á myndband í símanum þegar batteríið sprakk,“ sagði amma drengsins í samtali við New York Post. Atvikið átti sér stað um helgina og virðist drengurinn ekki hafa slasast alvarlega.

Sjá einnig: Samsung stöðvar sölu á Galaxy Note 7

Er þetta fyrstu meiðslin sem vitað er um að verða af völdum galla í símanum sem verður til þess að hætta er á að síminn geti sprungið á meðan á hleðslu stendur eða að henni lokinni.

Fórnarlamb gallans.Vísir/Skjáskot
Samsung segist vita um 35 tilvik þess efnis en en eigendur símans hafa birt myndir og myndbönd af brunnum símum sínum á samfélagsmiðlum. Þá varð jeppi alelda í Flórída en rekja má brunann til Galaxy Note 7 síma sem var í hleðslu í bílnum.

Bandarísk yfirvöld hafa varað eigendur Note 7 síma við því að kveikja á eða hlaða símann sinn um borð í flugvélum í háloftunum vegna sprengihættunnar. Einnig segja þau að ekki sé ráðlagt að pakka símanum niður í farangur af sömu ástæðu.

Sjá einnig: Innköllun Samsung hefur lítil áhrif hér á Íslandi

Samsung hefur sagt að það muni taka um tvær vikur fyrir fyrirtækið að komast fyrir vandamálið. Þeir sem keypt hafi eintak af símanum muni geta skipt því út fyrir eintak sem sé laust við sprengihættuna. Gengi hlutabréfa í Samsung hríðféll í nótt um 6,98 prósent. Ástæðu þess má rekja til vandamála vegna Note 7.

Innköllun farsímaframleiðandans Samsung á nýja Galaxy Note 7 símanum hefur lítil sem engin áhrif hér á landi en hann er ekki kominn í sölu hér á landi.

Síminn var settur á markað þann 19. ágúst síðastliðinn og er flaggskip Samsung á símamarkaði. Alls hafa selst um 2,5 milljón eintaka til þessa.


Tengdar fréttir

Samsung stöðvar sölu á Galaxy Note 7

Fréttir hafi borist bæði frá Bandaríkjunum og Suður-Kóreu um að síminn hafi sprungið á meðan á hleðslu stendur eða að henni lokinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×