Erlent

Sprenging í ruslagámi í New Jersey

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá vettvangi sprengingarinnar í New York.
Frá vettvangi sprengingarinnar í New York. Vísir/AFP
Sprengja sprakk í ruslagámi í New Jersey í morgun. Sprengjusveit var að reyna að gera eina af fimm sprengjum sem fundust í bakpoka í gámnum óvirka þegar hún sprakk. Tveir menn sem fundu sprengjurnar segja víra og rör hafa staðið út úr bakpokanum.

Sprengjurnar fundust í borginni Elizabeth í New Jersey.

Sprengja sprakk einnig í New York í gær og var önnur gerð óvirk. 29 særðust í sprengingunni. Auk þess sprakk önnur rörasprengja í Elizabeth um helgina.

Yfirvöld rannsaka nú hvort sprengingarnar og sprengjurnar tengist. Fimm manns hafa verið handtekin í New York og eru nú í yfirheyrslu.





Engan sakaði í nýjustu sprengingunni í Elizabeth en neðanjarðarlestakerfi New Jersey var stöðvað um tíma.

Sprengjan í New York var gerð úr svokölluðum hraðsuðupotti, sem notaður er til matargerðar. Önnur sprengja, sem ekki hafði sprungið, fannst í nágrenninu og var hún sömu gerðar. Í pottana er sett sprengjuefni og þeir síðan fylltir með nöglum og járnflísum og eru sprengjurnar svipaðrar gerðar og notaðar voru í árásinni á Boston-maraþonið árið 2013.

Ekki liggur fyrir hvernig né hvort atvikin tengjast.

Á laugardaginn gekk ungur maður berserksgang í verslunarmiðstöð í Minnesota og stakk níu manns. Hann var skotinn til bana af lögregluþjóni á frívakt og ekkert fórnarlamba hans lét lífið. Íslamska ríkið hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni og segja hinn 22 ára gamla Dahir Adan vera hermann ISIS.

Alríkislögregla Bandaríkjanna segir þó að verið sé að rannsaka árásina sem „mögulegt hryðjuverk“. Árásarmaðurinn var klæddur í öryggisvarðabúning og er sagður hafa starfað við öryggisgæslu í hlutastarfi. Hann spurði minnst eitt af fórnarlömbum sínum hvort að hann væri múslimi.

FJölskylda Adan segir að hann hafi verið að hefja þriðja ár sitt í háskóla og þau hafi ekki grunað að hann væri viðloðinn hryðjuverkastarfsemi. Skólasystkyn hans sem Minnesota Star Tribune ræddi við segja hann hafa haft meiri áhuga á íþróttum en trúarmálum og að hann hafi verið góður nemandi.

Múslimar í borginni St. Cloud, þar sem árásin var gerð, óttast að samfélagið muni snúast gegn þeim vegna árásarinnar.


Tengdar fréttir

Aftur notuð pottasprengja

Sprengjan sem fannst í Chelsea-hverfinu í New York á laugardagskvöld, um þremur tímum eftir að önnur sprengja sprakk í sama hverfi, reyndist vera pottasprengja.

Sprengingin var hryðjuverk

Yfirvöld í New York segja nú að sprengingin sem varð í fjölmennu hverfi í borginni hafi verið hryðjuverk.

29 særðir eftir sprengingu í New York

Bill de Blasio, borgarstjóri borgarinnar, segir að sprengingin hafi verið viljaverk en ekkert bendi til þess að um hryðjuverk hafi verið að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×