Erlent

Aftur notuð pottasprengja

Heiðar Lind Hansson skrifar
Frá vettvangi í New York á laugardaginn þar sem pottasprengjan fannst.
Frá vettvangi í New York á laugardaginn þar sem pottasprengjan fannst. vísir/epa
Sprengjan sem fannst í Chelsea-hverfinu í New York á laugardagskvöld, um þremur tímum eftir að önnur sprengja sprakk í sama hverfi, reyndist vera pottasprengja. Um er að ræða álíka sprengju og ódæðismenn sprengdu í Boston-maraþoninu í apríl 2013 sem kostaði sex mannslíf.

Pottasprengja er tiltölulega auðveld í samsetningu, en hún er þannig gerð að notaður er hraðsuðupottur sem fylltur er af sprengiefni með hvellhettu. Sprengjuna er hægt er að setja af stað með farsíma, stafrænni klukku eða bílskúrsopnara. Sprengjan sem fannst var tengd farsíma.

Alls slösuðust 29 manns í sprengingunni á laugardagskvöld í Chelsea-hverfinu. Enginn slasaðist lífshættulega, en allir sem slösuðust voru útskrifaðir af sjúkrahúsi í gærkvöld. Ekki er vitað hver ber ábyrgð á árásinni, en yfirvöld í New York vinna nú að rannsókn málsins.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir

Sprengingin var hryðjuverk

Yfirvöld í New York segja nú að sprengingin sem varð í fjölmennu hverfi í borginni hafi verið hryðjuverk.

29 særðir eftir sprengingu í New York

Bill de Blasio, borgarstjóri borgarinnar, segir að sprengingin hafi verið viljaverk en ekkert bendi til þess að um hryðjuverk hafi verið að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×