Íslenski boltinn

Þorsteinn um mögulega þátttöku Hörpu: Setur aðra leikmenn í óeðlilega stöðu

Ingvi Þór Sæmundsson á Kópavogsvelli skrifar
Þorsteinn sá sínar stelpur vinna flottan sigur í kvöld.
Þorsteinn sá sínar stelpur vinna flottan sigur í kvöld. vísir/eyþór
Eftir 3-0 sigur Breiðabliks á ÍBV í 15. umferð Pepsi-deildar kvenna er ljóst að leikur Blika og Stjörnunnar á laugardaginn verður nánast úrslitaleikur um Íslandsmeistaratitilinn.

Blikar eru tveimur stigum á eftir Stjörnukonum sem sitja á toppnum og bæði lið eru því með örlögin í sínum höndum.

„Við búum okkur undir þennan leik eins og hvern annan leik á móti Stjörnunni,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks, í samtali við Vísi eftir leikinn gegn ÍBV.

„Við verðum í endurheimt á morgun, tökum létta æfingu á föstudaginn og svo verðum við klár í leikinn á laugardaginn. Við mætum í Garðabæinn til að vinna, ætlum að vinna og munum vinna.“

Stærsti óvissuþátturinn fyrir stórleikinn á laugardaginn er þátttaka Hörpu Þorsteinsdóttur, markahæsta leikmanns deildarinnar. Harpa er barnshafandi en spilaði í 1-3 sigri Stjörnunnar á ÍA í gær, þrátt fyrir að vera komin 13 vikur á leið.

„Þau verða að eiga það algjörlega við sjálfa sig hvort ófrísk kona spili fótboltaleik og seti aðra leikmenn í óeðlilega stöðu finnst mér. Þau verða að eiga það við sjálfa sig og við spáum ekkert í það. Við förum bara í þennan leik til að vinna hann,“ sagði Þorsteinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×