Erlent

ISIS kynnir nýjan leiðtoga Boko Haram

Atli Ísleifsson skrifar
Abubakar Shekau tók við leiðtogaembætti Boko Haram í júlí 2009
Abubakar Shekau tók við leiðtogaembætti Boko Haram í júlí 2009 Vísir/AFP
Abu Musab al-Barnawi er nýr leiðtogi hryðjuverkasamtakanna Boko Haram í vesturhluta Afríku, en hann hefur að undanförnu gegnt stöðu talsmanns samtakanna.

Hann er kynntur nýr leiðtogi hópsins í nýjasta áróðurshefti hryðjuverkasamtakanna ISIS, en Boko Haram sór hollustu við ISIS í mars á síðasta ári.

Í heftinu er ekki greint frá því hvað hafi orðið um Abubakar Shekau, fyrrverandi leiðtoga Boko Haram. Síðast heyrðist í honum í hljóðupptöku frá samtökunum í ágúst á síðasta ári, þar sem fram kom að hann væri enn á lífi og við völd. Þetta var svo endurtekið í myndbandsupptöku ISIS í apríl síðastliðinn.

Í frétt BBC segir að Boko Haram hafi að undanförnu misst stærstan hluta þess landsvæðis sem það stýrði fyrir um hálfu öðru ári síðan, en samtökin hafa unnið að því að koma á íslömsku ríki á svæði í norðurhluta Nígeríu og nágrannaríkjum.

Barátta Boko Haram hefur staði í um sjö ár og hafa um 20 þúsund manns látíð lífið, fyrst og fremst í norðausturhluta Nígeríu.

Shekau tók við leiðtogaembætti Boko Haram í júlí 2009 eftir að stofnandi hópsins, Muhammad Yusuf, lét lífið í gæsluvarðhaldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×