Innlent

Hærri endurgreiðslur til kvikmyndagerðar samþykktar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Íslenska ríkið hefur varið fimm og hálfum milljarði í endurgreiðslur til  kvikmyndagerðar en sú mynd sem hæsta endugreiðsluna hefur fengið er The Secret Life of Walter Mitty.
Íslenska ríkið hefur varið fimm og hálfum milljarði í endurgreiðslur til kvikmyndagerðar en sú mynd sem hæsta endugreiðsluna hefur fengið er The Secret Life of Walter Mitty. Vísir
Alþingi samþykkti í kvöld að hækka endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar úr 20 prósent í 25 prósent. Endurgreiðslukerfið verður framlengt um fimm ár og stjórnsýslan í kringum endurgreiðsluna einfölduð. Kallað hefur verið eftir hækkun endurgreiðslunnar svo auka megi samkeppnishæfni íslenskrar kvikmyndagerðar.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra lagði fram frumvarp þess eðlis í mars en löggjöfin sem frumvarpið nær til átti að renna út um næstu áramót.

Frumvarpið var samþykkt á þingi í kvöld með 38 atkvæðum gegn einu atkvæði Sigríðar Ásthildar Andersen, þingmanns Sjálfstæðisflokksins sem sagðist við atkvæðagreiðsluna hafa efasemdir um réttmæti ríkisstyrkja af þessu tagi.

Sjá einnig: Fréttaskýring: Svarti sandurinn kveikti áhuga Hollywood á Íslandi

Einar Hansen Tómasson, sem fer fyrir verkefninu Film In Iceland sem hefur það að markmiði að kynna erlendum kvikmyndagerðarmönnum Ísland sem tökustað, segir að lögin um endurgreiðslu til kvikmyndagerðar hér á landi sé frumforsenda þess að menn horfi til Íslands sem heppilegs tökustaðs.

„Það er bara þannig að ef við værum ekki með endurgreiðslukerfi þá kæmum við ekki til greina,“ sagði hann í samtali við Vísi í vor.

Í fyrra námu endurgreiðslur úr ríkissjóði vegna kvikmyndagerðar hér á landi 793 milljónum króna. Þessar tölur eru aðgengilegar á vef Kvikmyndamiðstöðvar þar sem sjá má tölur frá árunum 2001 til 2015. Á þeim árum hefur ríkissjóður varið um fimm og hálfum milljarði króna í endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.