Erlent

Fyrsta Chibok stelpan fundin í Nígeríu

Samúel Karl Ólason skrifar
Hluti stúlknanna á myndbandi sem Boko Haram birtu í síðasta mánuði.
Hluti stúlknanna á myndbandi sem Boko Haram birtu í síðasta mánuði. Vísir/AFP
Búið er að finna fyrstu stúlkuna af 219 sem rænt var í bænum Chibok í Nígeríu árið 2014. Vígamenn hryðjuverkasamtakanna Boko Haram réðust inn í heimavistarskóla stúlknanna og rændu þaðan 276 þeirra. Einhverjum þeirra tókst að komast undan ræningjunum með því að stökkva af vörubílum og fela sig í runnum.

Allt í allt tókst vígamönnunum að nema 219 stúlkur á brott. Ekkert hefur heyrst af þeim síðan.

Brottnám skólastúlknanna vakti mikla reiði og var fordæmt um allan heim og varpaði athygli á átökin í Nígeríu.

Aðgerðarsinnar segja nú að stúlka hafi fundist í Sambisa skóginum nærri landamærum Kamerún. Tvennum sögum fer af því hvort að stúlkan sé ólétt eða hún sé með ungabarn með sér í för. Hún er sögð heita Amina Ali Nkek.

Samkvæmt Sky News er talið mögulegt að fleiri stúlkum hafi verið bjargað þegar herinn réðst gegn vígamönnum á svæðinu í gærkvöldi. Herinn hefur þó ekki tjáð sig um aðgerðirnar í Sambisa skóginum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×