Fótbolti

Hjörtur var rúmlega eins árs þegar Eiður Smári lék sinn fyrsta landsleik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eiður Smári er á leiðinni á EM, 20 árum eftir að hann lék sinn fyrsta landsleik.
Eiður Smári er á leiðinni á EM, 20 árum eftir að hann lék sinn fyrsta landsleik. vísir/anton
Eiður Smári Guðjohnsen er elstur, leikja- og markahæstur í íslenska landsliðshópnum sem fer á EM í sumar.

Eiður, sem er 37 ára, sjö mánaða og 25 daga gamall, hefur leikið 84 landsleiki á 20 ára löngum landsliðsferli.

Eiður lék sinn fyrsta landsleik gegn Eistlandi 24. apríl 1996 en þá var yngsti meðlimur íslenska hópsins sem fer á EM, Hjörtur Hermannsson, aðeins eins árs, tveggja mánaða og 17 daga gamall.

Hjörtur á fæsta landsleiki að baki af þeim 23 leikmönnum sem skipa íslenska hópinn, eða tvo.

Eiður Smári hefur skorað flest landsliðsmörk af öllum í hópnum, eða 25, sex mörkum meira en Kolbeinn Sigþórsson en þeir eru markahæstu leikmenn í sögu íslenska landsliðsins.

Eiður er jafnframt eini leikmaðurinn í hópnum sem lék sinn fyrsta landsleik á síðustu öld.

Níu ár liðu frá því Eiður lék sinn fyrsta landsleik og þar til næstu leikmenn í hópnum þreyttu frumraun sína, Kári Árnason og Emil Hallfreðsson, en þeir léku sinn fyrsta landsleik í markalausu jafntefli gegn Ítalíu 30. mars 2005.

Gamanið var þó stutt hjá Kára í þeim leik en hann kom inn á sem varamaður á 77. mínútu og þremur mínútum síðar fékk hann að líta rauða spjaldið.


Tengdar fréttir

Lagerbäck hættir eftir EM

Tilkynnti á blaðamannafundi í dag að hann mun ekki endurnýja samning sinn við KSÍ eftir EM í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×