Erlent

Lögðu hald á „grunsamlegt efni“

Frá aðgerðum lögreglunnar í morgun
Frá aðgerðum lögreglunnar í morgun
Breska lögreglan lagði í morgun hald á „grunsamlegt efni“ á heimili í Birmingham sem grunur leikur á að megi rekja til einstaklinga með tengsl við voðaverkin í París og Brussel.

Fjórir karlmenn og ein kona voru handtekin í aðgerðunum sem voru samstarfsverkefni bresku leyniþjónustunnar sem og frönsku og belgísku lögreglunnar. Fjögur voru handtekin aðfaranótt föstudags og var sá fimmti handtekinn á Gatwick-flugvelli á föstudagsmorgunn.

Þau eru öll í haldi vegna gruns um að hafa lagt á ráð um hryðjuverk eða hafa tengsl við hryðjuverkahópa er fram kemur í frétt Sky um málið. Það var svo í morgun sem lögreglan fann grunsamlega efnið í húsnæði á vegum fimmmenninganna í Small Heath-hverfinu í Birmingham.

Að sögn talsmanns lögreglunnar var ekki talin nein hætta á ferðum og ekki var talið nauðsynlegt að rýma nærliggjandi hús vegna málsins. Ekki er talið að þau fimm sem handtekin voru hafi ætlað að fremja hryðjuverk í Bretlandi en þau verða yfirheyrð næstu daga meðan mál þeirra er til rannsóknar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.