Erlent

Rokkarinn Andrew W.K. að blanda sér í forsetaslaginn?

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Ætlar Andrew WK að taka Jón Gnarr á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum?
Ætlar Andrew WK að taka Jón Gnarr á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum? Visir/Getty
Annað hvort er um að ræða eitt metnaðarfyllsta aprílgabb rokksögunnar eða þá að bandaríski rokkarinn Andrew W.K. er alvarlega að íhuga forsetaframboð.

Í dag opnaði hann vefsvæði og deildi myndbandi á netinu þar sem hann tilkynnir um stofnun nýs flokks sem eigi að ógna tvíflokkakerfinu sem hefur verið alls ráðandi í bandarískum stjórnmálum. Það kemur kannski aðdáendum rokkarans ekki á óvart að nýi flokkurinn beri nafnið The Party Party.

Í tilkynningunni kemur fram að hann og fleiri séu þreyttir á því að heyra stjórnmálamenn úr sitthvorum flokknum sífellt lofa sömu hlutunum, sem svo aldrei sé staðið við.

Í myndbandinu segist hann vera búinn að afreiða alla þá pappírsvinnu sem þarf til þess að stofna nýjan flokk og að aðeins vanti örfáar undirskriftir til þess að flokkurinn verði að veruleika og geti blandað sér í baráttuna um forsetastólinn.

Þegar síðan er svo heimsótt kemur tilkynning um að söfnuninni sé lokið þar sem nægur fjöldi undirskrifta hafi náðst. Það verður forvitnilegt að fylgjast með því hvort Andrew W.K. ætli sér í raun og veru að blanda sér í slaginn við Hillary Clinton og Donald Trump en það verður tíminn að leiða í ljós. Víst er að öll umgjörð er í það minnsta vel útfærð og sannfærandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×