Erlent

Nýjar ásakanir um kynferðislegt ofbeldi friðargæsluliða SÞ

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Svíinn Anders Kompass, yfirmaður hjá SÞ, var rekinn þegar hann greindi frá ofbeldinu en fékk síðar uppreist æru.
Svíinn Anders Kompass, yfirmaður hjá SÞ, var rekinn þegar hann greindi frá ofbeldinu en fékk síðar uppreist æru. NORDICPHOTOS/AFP
Nær hundrað stúlkur hafa greint Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) frá því að friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna (SÞ) í Mið-Afríkulýðveldinu hafi beitt þær kynferðislegu ofbeldi. Þrjár þeirra eru sagðar hafa verið þvingaðar til maka með hundi. Mannréttindasamtökin Aids-Free World segja að umfang ofbeldisins geti verið miklu meira, að því er greint er frá á vef sænska blaðsins Dagens Nyheter.

Friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna í Mið-Afríkulýðveldinu hafa lengi verið grunaðir um kynferðislegt ofbeldi gagnvart íbúum landsins. Sænskur yfirmaður hjá SÞ, Anders Kompass, var rekinn úr starfi þegar hann greindi frá niðurstöðum skýrslu sinnar um ofbeldi gagnvart börnum á aldrinum átta til 15 ára fyrir tveimur árum. Börnin fengu meðal annars loforð um matargjafir í skiptum fyrir kynlíf. Upplýsingarnar sem komið hafa fram núna eiga að hluta til við sama tímabil.

Við rannsókn sína 2014 komst Kompass að því að flestir friðargæsluliðarnir sem sakaðir voru um kynferðislegt ofbeldi væru frá Frakklandi. Hann hafði samband við franska stjórnarerindreka sem báðu um skýrsluna. Mál 14 friðargæsluliða eru enn í rannsókn í Frakklandi. Kompass var rekinn vegna þess að hann hafði afhent utanaðkomandi upplýsingar. Rökin voru þau að þær gætu skaðað fórnarlömbin. Dómstóll SÞ úrskurðaði í maí í fyrra að rangt hefði verið að reka Kompass. Í janúar síðastliðnum var tilkynnt að hann hefði fengið uppreist æru.

Greint er frá því á vef Dagens Nyheter að efnt hafi verið til neyðarfundar meðal yfirmanna hjá SÞ síðastliðinn þriðjudag vegna nýju upplýsinganna. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×