Tíu manns hafa verið handteknir í Brussel vegna gruns um að safna liðsmönnum fyrir hryðjuverkasamtökin ISIS.
Belgíska sjónvarpsstöðin RTL greinir frá því að handtökurnar hafi átt sér stað í úthverfum Brussel - í Molenbeek, Koekelberg, Schaerbeek og Etterbeek. Það var sérstakur saksóknari í Liége sem fyrirskipaði handtökurnar.
Lögregla lagði einnig hald á fjölda síma og önnur gögn sem gæti nýst við frekari rannsókn.
Saksóknari ákvarðar síðar í dag hvort að mennirnir verði ákærðir.
Ekki er talið að mennirnir hafi bein tengsl við hryðjuverkaárásirnar í París í nóvember.
Tíu grunaðir ISIS-liðar handteknir í Belgíu
Atli Ísleifsson skrifar
