Erlent

Morðið á Litvinenko rakið til Pútíns

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Nikolaí Patrúsjev, fyrrverandi  yfirmaður rússnesku leyniþjónustunnar FSB, ásamt Vladimír Pútín forseta.
Nikolaí Patrúsjev, fyrrverandi yfirmaður rússnesku leyniþjónustunnar FSB, ásamt Vladimír Pútín forseta. vísir/EPA
Rússnesk stjórnvöld segja pólitískar hvatir búa að baki bresku rannsókninni á morðinu á Alexander Litvinenko. Ásakanir á hendur Vladimír Pútín forseta séu til þess eins gerðar að beita Rússa þrýstingi vegna ágreinings landanna í alþjóðamálum.

Robert Owen, fyrrverandi hæstaréttardómari, kynnti í gær niðurstöður rannsóknar sinnar og sagði allar líkur á því að Nikolaí Patr­úsjev, þáverandi yfirmaður rússnesku leyniþjónustunnar FSB, hafi vitað um og samþykkt áform um að myrða Litvinenko. Jafnframt sé ólíklegt annað en að Vladimír Pútín forseti hafi einnig vitað um og samþykkt þessi áform.

Litvinenko, sem var fyrrverandi leyniþjónustumaður hjá FSB, var myrtur árið 2006 í London, þar sem hann bjó í útlegð.

Marina Litvinenko, ekkja Litvin­enkos, fagnaði niðurstöðunum og sagðist stolt af bresku réttarfari. Nú sé óhugsandi annað en að breska stjórnin beiti Rússland refsiaðgerðum.

Theresa May, innanríkisráðherra Bretlands, skýrði síðan frá því að nú þegar hafi verið ákveðið að frysta eignir mannanna tveggja, sem grunaðir eru um morðið. Frekari refsiaðgerðir séu í skoðun.

Annar þeirra, Andrei Lugovoi, sagði rannsóknarskýrsluna frá Owen hins vegar fáránlega: „Niðurstöðurnar, sem birtar voru í dag, sýna bara andstöðu bresku stjórnarinnar við Rússland einu sinni enn.“

Í skýrslu sinni segist Owen telja fullsannað að þeir Lugovoi og Dmitrí Kovtun, sem báðir voru starfandi í rússnesku leyniþjónustunni, hafi myrt Litvinenko á kaffihúsi í London. Þeir hafi byrlað honum þar geislavirkt efni með því að setja það út í tebolla, sem Litvin­enko drakk úr.

Hann segir jafnframt nokkuð ljóst að þeir Lugovoi og Kovtun hafi ekki tekið upp á þessu að eigin frumkvæði. Flest bendi til þess að þeir hafi unnið þetta verk að undirlagi FSB.

Owen segist síðan engar beinar sannanir hafa fyrir því að Patrúsjev og Pútín hafi vitað af áformunum um að myrða Litvinenko. Hins vegar megi með töluverðri vissu draga þá ályktun af þeirri staðreynd, að starfsmenn FSB væru afar ólíklegir til þess að grípa til aðgerða af þessu tagi án þess að bera það undir æðsta yfirmann sinn, sem var Patrúsjev, og að Patrúsjev hafi sömuleiðis varla samþykkt slíkt án þess að hafa Pútín með í ráðum.

Owen tekur reyndar sérstaklega fram að hann sé ekki bundinn af jafn ströngum reglum um sönnunar­byrði, eins og hann væri ef um réttarhöld væri að ræða.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×