Erlent

Umsátursástandi lokið í höfuðborg Búrkína Fasó

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Franskt herlið aðstoðaði heimamenn í Búrkína Fasó.
Franskt herlið aðstoðaði heimamenn í Búrkína Fasó. Vísir/AFP
126 gíslar hafa frelsaðir eftir að búrkínskar og franskar hersveitir réðust til atlögu gegn byssumönnum sem í gærkvöldi réðust inn á Splendid-hótelið, vinsælt hótel í Ouagadogou, höfuðborg Búrkína Fasó. Talið er að minnst 22 hafi látist í umsátursástandinu sem skapaðist, þar af þrír af byssumönnunum.

Frönsk hersveit kom frá nágrannaríkinu Malí til þess að aðstoða heimamenn. Hersveitirnar réðust inn á hótelið í morgun og hófust miklir skotbardagar í kjölfarið. Í fyrstu tilraun tókst að frelsa um 60 gísla en hersveitirnar börðust gegn byssumönnunum á hverri hæð á hinu fimm hæða hóteli þangað til yfir lauk.

Minnnst 33 eru særðir en ekki er vitað hversu margir voru í eða við hótelið þegar árásirnar voru gerðar. Splendid hótelið er vinsælt hótel, yfirleitt notað af starfsmönnum Sameinuðu þjóðanna, diplómötum og vestrænum ferðamönnum. Hótelið er fjögurra stjörnu og stendur skammt frá aðalflugvelli landsins.

Búrkína Fasó er í miðvesturhluta Afríku og á meðal annars landamæri að Malí en tuttugu féllu í áþekkri árás þar í landi 20. nóvember síðastliðinn.

Talið er að sami hryðjuverkahópur og framdi þá árás hafi staðið að baki árásinni á Splendid-hótelið í gærkvöldi. Hópurinn er tengdur hryðjuverkasamtökunum al-Qaida og gengur undir nafninu AQIM eða al-Qaida in the Islamic Maghreb.


Tengdar fréttir

Tugir létust á hóteli í Malí

Margir taldir hafa látið lífið í átökum þegar herinn réðst inn á hótel í Malí til að frelsa 170 gísla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×