Erlent

Tugir létust á hóteli í Malí

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Einum gíslanna bjargað út af hótelinu.
Einum gíslanna bjargað út af hótelinu. Nordicphotos/AFP
Franskir hermenn tóku þátt í aðgerðum hersins í Malí þegar hátt á annað hundrað manns var bjargað úr klóm gíslatökumanna á hóteli í höfuðborginni Bamako.

Óljóst var hve margir létust í átökum við gíslatökumennina, en talið að það gætu hafa verið allt upp í nokkrir tugir. Ekki var vitað hve margir hinna látnu væru úr röðum gíslanna.

Fréttastofan Reuters hafði eftir friðargæslumanni frá Sameinuðu þjóðunum að hann hafi séð 27 lík samtals á tveimur hæðum hótelsins, en væri ekki búinn að leita víðar.

Fjöldi manns til viðbótar lá í sárum eftir átökin og þurfti að flytja marga á sjúkrahús.

Hópur vopnaðra manna hafði ráðist inn á hótelið og tekið þar 170 manns í gíslingu. Vitni segir að mennirnir hafi verið um tíu talsins. Þeir hafi ekið upp að hótelinu á bifreiðum með númeraplötur frá sendiráðum og byrjað á að skjóta öryggisverði utan við hótelið.

Hermaður í Malí í anddyri hótels þar sem gíslatökuástand myndaðist í gær. Nordicphotos/AFP
Tvö samtök hryðjuverkamanna voru sögð hafa lýst fljótlega yfir ábyrgð á gíslatökunni. Að sögn arabísku fréttastöðvarinnar Al Jazeera eru það Al Kaída og og samtök sem nefnast Al Murabitun, sem einnig hafa tengsl við Al Kaída.

Hótelið er partur af hótelkeðjunni Radisson Blu og vinsælt meðal útlendinga í höfuðborginni. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×