Erlent

Kínverjar hóta Taívönum vegna áherslu á sjálfstæði

Guðsteinn Bjarnson skrifar
Tsai Ing-wen, nýkjörinn forseti Taívans, boðar aukna áherslu á sjálfstæði landsins.
Tsai Ing-wen, nýkjörinn forseti Taívans, boðar aukna áherslu á sjálfstæði landsins. Fréttablaðið/EPA
Kínastjórn varar nýkjörinn forseta Taívans við því að leggja frekari áherslu á sjálfstæði Taívans gagnvart Kína.

Tsai Ing-wen vann öruggan sigur í forsetakosningum á laugardaginn. Flokkur hennar, Lýðræðislegi framfaraflokkurinn, sigraði einnig í þingkosningum sama dag.

Tsai og flokkur hennar hafa lagt áherslu á sjálfstæði Taívans, öfugt við fyrri stjórn sem lagði meiri áherslu á að bæta samskiptin við Kína.

Tsai og flokkur hennar hétu því reyndar einnig í kosningabaráttunni að halda áfram að eiga í góðum samskiptum við Kína.

Kínverska ríkisfréttastofan Xinhua segir að það myndi eitra samskiptin ef nýja stjórnin vill ýta undir sjálfstæði.

Kína viðurkennir ekki sjálfstæði eyríkisins Taívans, en Taívan viðurkennir reyndar ekki heldur annað en að Kína eigi að tilheyra Taívan, enda hafi réttmæt stjórnvöld Kína flúið til Taívans þegar kommúnistar gerðu byltingu í Kína árið 1949.

Einungis 22 lönd viðurkenna sjálfstæði Taívans, en Vesturlönd hafa flest hikað við að taka upp pólitísk samskipti við Taívan, enda er þar hinu volduga Kína að mæta sem tæki slíkt afar óstinnt upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×